Fréttir

Karfa: Yngri flokkar | 19. mars 2009

Úrslit yngri flokka halda áfram

Nú um helgina leika 7. flokkur karla, 9. flokkur kvenna og 10. flokkur karla í 4. og síðastu umferð Íslandsmótsins.  Eitt af þessum mótum verður á heimavelli. 

Um sl. helgi varð 8.flokkur kvenna Íslandsmeistari eins og áður hefur komið fram á heimasíðunni og Stúlknaflokkur vann alla sína leiki og eru komnar í undanúrslit. Glæsileg frammistaða þar á ferðinni.  Ekki gekk jafn vel hjá 8. og 11. flokki karla en þeir flokkar töpuðu öllum sínum leikjum og hafa því lokið þátttöku sinni þetta keppnistímabil.

 7. flokkur karla keppir í B-riðli um helgina og fer mótið fram í Vestmannaeyjum. Þeir leika á laugardag við Breiðablik kl. 10.00 og UMFN kl. 12.00.  Á sunnudag leika þeir við Fjölni kl. 08.30 og heimamenn í ÍBV kl. 10.30.  Okkar strákum tókst að vinna sig upp í B-riðil á síðasta móti eftir að hafa leikið í C-riðli síðustu tvær umferðir.  Að þessu móti loknu hafa drengirnir lokið þátttöku í Íslandsmótinu þetta tímabil.

9. flokkur kvenna keppir í A-riðli sem fyrr og eru stelpurnar ósigraðar í vetur. Þær hafa því unnið sér inn heimavallarréttinn í síðustu umferðinni. Leikið verður í Heiðarskóla á föstudag við UMFN kl. 17.15 og Hauka kl. 21.00.   Á laugardag verður leikið í Toyota höllinni við KR kl. 11.30 og UMFG kl. 14.00.  Fjögur efstu lið umferðarinnar fara í undanúrslit en stelpurnar hafa titil að verja í þessum aldursflokki og eru nýbakaðir Bikarmeistarar.

10. flokkur karla fer í Smárann í Kópavogi og keppir í A-riðli.  Breiðablik er með  besta árangurinn í þessum flokki en í raun getur allt gerst því liðin í þessum flokki eru ákaflega jöfn að getu og t.a.m. unnu Keflvíkingar síðasta mót og UMFN varð í öðru. Okkar strákar urðu Íslandsmeistarar í þessum aldursflokki fyrir tveimur árum en í fyrra voru það Blikar sem urðu meistarar eftir þriggja stiga sigur á okkar drengjum 50-47. Keflavík spilar á laugardag við KR kl. 13.45 og Breiðablik kl. 17.30.  Á sunnudag verður leikið  við Fjölni kl. 12.30 og UMFN kl. 15.00.  Fjögur efstu lið umferðarinnar fara í undanúrslit. 

Undanúrslit Íslandsmótsins verða leikin í Laugardalshöll 17. – 26. apríl.

Unglingaráð KKDK sendir krökkunum baráttukveðjur

Áfram Keflavík