Fréttir

Karfa: Yngri flokkar | 12. mars 2009

Úrslit yngri flokka hefjast um helgina

Nú um helgina fer fram 4. og síðasta umferð Íslandsmótsins í nokkrum flokkum og fyrstu meistaratitlar tímabilsins munu líta dagsins ljós.  Leikið verður í 8. flokki karla og kvenna, 11. flokki karla og Stúlknaflokki. Tvö af þessum mótum verða á heimavelli en það lið sem á bestan árangur í 1. – 3. umferð fær sjálfkrafa rétt á að halda síðasta mótið. Í 8. flokki og yngri verða þau lið Íslandsmeistarar sem vinna umferðina en fjögur efstu lið 4. umferðar í 9. flokki og eldri vinna sér sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins sem leikin verða í Laugardalshöll 17. – 26. apríl.

8. flokkur kvenna keppir í A-riðli sem fyrr og eru stelpurnar ósigraðar í vetur. Þær hafa því unnið sér inn heimavallarréttinn í síðustu umferðinni og ætla sér ekkert annað en Íslandsmeistaratitil. Leikið verður í Toyota höllinni á föstudag við UMFN kl. 17.00 og Breiðablik kl. 20.00.   Á laugardag verður leikið í Íþróttaakademíunni við ÍR kl. 16.00 og UMFG kl. 18.00.  Sigurvegarar umferðarinnar verða krýndir Íslandsmeistarar.

8. flokkur karla keppir einnig í A-riðli um helgina og fer mótið fram í Njarðvík. Þeir leika á föstudag við UMFN kl. 16.00 og Stjörnuna kl. 18.00.  Á laugardag leika þeir við Þór Þorlákshöfn kl. 10.00 og KR kl. 12.00.  Njarðvíkingar eru með besta árangur vetrarins í þessum flokki en KR ingar standa þeim ekki langt að baki.  Okkar strákum tókst að vinna sig upp í A-riðil á síðasta móti og leika því í fyrsta skipti í vetur á meðal þeirra bestu. Það má því reikna með erfiðu móti fyrir drengina en þeir munu efalaust gera sitt besta til að halda sæti sínu í riðlinum. Sigurvegararnir verða krýndir Íslandsmeistarar.

11. flokkur karla fer í Grafarvoginn og keppir í A-riðli.  Þeir kepptu einnig sem A-lið í síðustu umferð og náðu að halda sér uppi.  Fjölnir og UMFN hafa haft talsverða yfirburði í þessum flokki og fyrirfram er talið líklegt að þau lið berjist um titilinn. Keflavík spilar á laugardag í Rimaskóla við UMFN kl. 10.30 og Fjölni kl. 13.30.  Á sunnudag verður leikið í Íþróttamiðstöðinni Grafarvogi og verður leikið við KR kl. 9.00 og Breiðablik kl. 13.30.  Fjögur efstu lið umferðarinnar fara í undanúrslit.

Stúlknaflokkur keppir í A-riðli líkt og fyrr í vetur en þær hafa átt glimrandi tímabil og aðeins tapað einum leik.  Þær hafa því unnið sér inn heimavallarrétt í síðasta mótinu sem fer fram í Heiðarskóla. Stelpurnar leika á laugardag við KR kl. 9.00 og UMFN kl. 13.30.  Á sunnudag leika þær við Snæfell kl. 10.30 og Hauka kl. 15.00. Þær ætla eflaust að halda sínu striki og freista þess að vinna umferðina en þá mæta þær liðinu sem verður í fjórða sæti í undanúrslitum.

Unglingaráð KKDK sendir krökkunum baráttukveðjur

Áfram Keflavík