Fréttir

Körfubolti | 12. mars 2007

Úrslitakeppnin að hefjast – spáð í spilin

Leiktíðin þessi fer nú brátt að nálgast hámarkið því úrslitakeppnin er á næsta leiti. Þetta er ávallt skemmtilegasti tími ársins fyrir körfuboltamenn og –konur því spennan vex og leikirnir verða flottari. Þó verður að segjast eins og er að væntingar til Keflavíkurliðanna eru mun lægri en oft áður þar sem gengi liðsins hefur verið slakt, þetta á þó sérstaklega við um karlaliðið. Við munum nú á stuttan hátt fjalla um átta liða úrslit karlanna og spá aðeins í spilin.

(1) Njarvík – (8) Hamar/Selfoss
Þetta er fyrirfram auðveldasta viðureignin til að spá fyrir um úrslit. Njarðvík hefur verið besta lið leiktíðarinnar þó þeir hafi ekki náð að sigra í bikarkeppnunum. Brenton og Jeb eru sérlega öflugir bakverðir og síðan hafa Njarðvíkingar stórt “front line” með Frikka, Agli og Igor. Jóhann og Gummi eru kraftmiklir svo að breiddin er fín. Varnarlega eru þeir klárlega með besta liðið, en sóknarleikurinn er stundum stirður, þótt ótrúlegt megi telja. Stundum hangir Jeb mikið á boltanum og lítið gerist. En mannskapurinn er svo miklu sterkari en hjá Hamarsmönnum að hér getur varla annað gerst en að Njarðvík komist áfram. Hamrarnir eru þekktir fyrir að hægja á leik sínum á heimavelli og nota Byrd, en hann þarf að kljást við Frikka sem er ekki auðvelt. Kannski nær Hamar að hanga í Njarðvík á heimavelli, en varla þó. Heimasíðan spáir 2-0 fyrir Njarðvík.

(2) KR – (6) ÍR
Baráttan um höfuðborgina. KR-ingar hafa verið jafnbetri, ef svo má segja, en nýkrýndir Bikarmeistarar úr Breiðholtinu eru til alls líklegir. Þeir hafa sótt í sig veðrið og hafa marga leikmenn sem geta skorað. Stundum hafa þeir átt það til að tapa sér í kappinu en yngri kynslóðin hefur fengið að kynnast sigrum og Vassel kemur með mikla reynslu inn í liðið. Hinn knái Tyson Patterson hefur verið frábær fyrir KR-inga í vetur og gaman verður að sjá hvort honum takist að splundra ÍR-vörninni í þessum leikjum. Von er á svaka rimmu hér og gerir heimasíðan ráð fyrir því að ÍR-ingar komi á óvart og sigri í oddaleiknum eftir að hvort liðið um sig vinni heimaleikinn fyrst. Sem sagt ÍR vinnur 2-1.

(4) Skallagrímur – (5) Grindavík
Páll Axel hefur verið sjóðandi heitur upp á síðkastið og Grindavík greinilega að eflast á lokasprettinum. Skallarnir hins vegar aðeins að missa flugið. Þeir hafa mikið skotið að utan en munu eflaust reyna að herða vörnina þegar í úrslitakeppnina er komið. Þeir eru stemmingslið og grunar mann að þeir munu finna körfuna í 3ja stiga skotunum á heimavellinum. Heimasíðan spáir því að liðin vinni sína heimaleiki og að Skallarnir sigri 2-1.

(3) Snæfell – (6) Keflavík
Okkar menn hafa ekki verið sannfærandi frá því í haust. Liðið hefur gengið í gegnum of margar breytingar og enginn stöðugleiki myndast. Tíðar skiptingar á mönnum og meiðsli hafa sett strik í reikninginn. Snæfell hefur hins vegar leikið jafnt og vel, ekki síst hafa þeir náð að leika góða vörn og hafa haldið andstæðingum í lágu skori. Snæfell hefur líklega besta “íslenska” þríeykið í deildinni með þá hávöxnu Hlyn, Sigurð Þ og Magna sem geta hver um sig sprungið út. En okkar lið hefur meiri reynslu en önnur í að vinna leiki og vinna úrslitaviðureignir. Menn eru ósáttir og vita vel að mögulegt er að snúa taflinu við með öflugum leikjum á næstunni. Sigurður þjálfari kann manna best að vinna svona viðureignir og hann veit vel að fyrsti leikurinn skiptir öllu máli. Ef Keflvíkingar mæta af alþekktri grimmd í Fjárhúsið á fimmtudaginn þá er allt mögulegt. EN ... svo bætist við óvissufaktorinn! Hvað er með nýja Kanann, hann Tony Harris? Er hann meiddur? Nær hann sér fyrir leikinn? Þarf Keflavík kannski að fá sér nýjan mann fyrir lokasprettinn .... enn einu sinni? Þegar allt er til tekið er algerlega ómögulegt að spá fyrir um þessi úrslit. En við Heimasíðumenn erum náttúrulega bjartsýnir og gerum ráð fyrir því að allt gangi upp að lokum í Bítlabænum og að við náum besta leik vetrarins í Stykkishólmi á fimmtudaginn, vinnum þar með þremur stigum og klárum svo dæmið í heimaleiknum á sunnudaginn. Keflavík 2-0 ..... nema hvað ....

ÁFRAM KEFLAVÍK!