Fréttir

Karfa: Konur | 17. febrúar 2010

Úrslitaleikur bikars á laugardag (uppfært með viðtölum)

Það verður magnþrungin stund fyrir kvennalið Keflavíkur og stuðningsmenn á laugardaginn, en þá mæta þær Haukastúlkum í úrslitum Subway-bikarkeppninnar í Laugardalshöllinni. Leikurinn hefst klukkan 14:00 og er skyldumæting fyrir alla stuðningsmenn Keflavíkur. Hvorki karla- né kvennaliði Keflavíkur hefur tekist að landa þessum eftirsótta titil síðan 2004, en það er bara alltof langt síðan og löngu kominn tími á titil hér á bæ. Keflavíkurstúlkur hafa landað þessum titil 11 sinnum frá árinu 1975, en Haukastúlkur 4 sinnum. Liðin hafa mæst 4 sinnum áður í bikarkeppninni, síðast árið 2007, en hvort lið hefur sigrað 2svar sinnum. Hér fyrir neðan má sjá hvaða ár liðin hafa mæst og hvernig lokatölur leikjanna voru:

1988: Keflavík 76-60 Haukar
1990: Keflavík 62-29 Haukar
1992: Haukar 70-54 Keflavík
2007: Keflavík 77-78 Haukar  

Púlsinn var tekinn á Jonna þjálfara, ásamt Bryndísi Guðmundsdóttur og Birnu Valgarðsdóttur.

 

Jonni Coach


Hvernig leggst leikurinn á laugardaginn í þig? Er einhver fiðringur
í maganum?

Leikurinn á laugardag leggst vel í mig og ég er fullur tilhlökkunnar. Ég er rosalega stoltur af stelpunum að hafa náð þessum áfanga. Það er ekki á hverjum degi sem lið komast í höllina. Það er ekki laust við að maður sem með fiðring.

Hvað þarf Keflavíkurliðið að gera til þess að landa sigri?
Það er hægt að telja upp fullt af hlutum en einfaldasta svarið er að við þurfum að spila betur en Haukar.

Hvaða ástæðu telur þú vera að Keflavíkurlið hafi ekki landað bikar
í þessari keppni síðan 2004?

Það er erfitt að segja. Síðan ég tók við liðinu þá erum við að fara í þriðja skipti í Höllina. Fyrsta skipti sem við fórum í höllina undir minni stjórn þá spiluðum við við Hauka og er það að margra mati einn best spilaði kvennaleikur frá upphafi kvennakörfu á Íslandi, við töpuðum þeim leik með einu stigi (hefðum getað jafnað á síðustu sek úr tveimur vítum en við klikkuðum á öðru vítinu og töpuðum þar af leiðandi með einu). Í þeim leik vorum við að spila við frábært lið og þetta hefði getað dottið hvoru megin sem var. Liðið fór svo aftur í Höllina í fyrra og það er skemmst að við töpuðum fyrir KR með nærri 20 stigum, KR mætti í þann leik hungraðara en við - það var munurinn. Svo erum við komin aftur í Höllina núna og við verðum að bíða og sjá fram á laugardag hvað verður.

Eru allar stelpurnar ekki í toppformi fyrir leikinn?
Það eru allar stelpurnar heilar í góðu formi.

Einhver lokaorð?
Ég vil hvetja alla sem að eru áhugamenn/konur um körfubolta að mæta á leikinn og styðja við bakið á stelpunum. Stelpurnar eru búnar að leggja mikið á sig til þess að ná þessum áfanga og þurfa þær nú á ykkar stuðningi að halda, áhorfendur eru sjötti leikmaðurinn það er löngu sannað. ÁFRAM KEFLAVÍK.

 

Bryndís Guðmundsdóttir

Hvernig leggst leikurinn í þig á laugardaginn? Er einhver fiðringur í maganum, eða ertu orðin vön?
Hann leggst bara mjög vel í mig. Kominn tími að við vinnum þennan bikar aftur orðið ansi langt síðan síðast. Jú það er kominn smá fiðringur í mann alltaf gaman að fá að spila í höllinni :)
 
Ætlið þið að leggja upp með eitthvað sérstakt í leiknum?
Vinna, spila vörn og hafa gaman er nr. 1, 2 og 3  :)
 
Er eitthvað við spilamennsku Haukastúlkna sem ber að varast sérstaklega?
Nei ekkert sérstakt, það sem skiptir mestu máli er að við spilum saman sem lið þá getur enginn stoppað okkur.
 
Hvers vegna telur þú að Keflavíkurliðið hafi ekki nema 2svar sinnum náð að landa þessum titil frá árinu 2000? Hvílir einhver bölvun í þessari keppni?
Nei ég held að það hvíli nú ekki nein bölvun á þessari keppni. Þetta snýst bara um hvaða liði langar meira í bikarinn og þessi skipti sem við höfum verið í bikarúrslitunum hafa hin liðin verið meira hungraðari í bikarinn heldur en við því miður.
 
Einhver lokaorð til stuðningsmanna Keflavíkur?
Endilega mætið á völlinn, þetta verður sá leikur sem enginn stuðningsmaður keflavíkur vill missa af :)
 
Birna Valgarðsdóttir
 
Hvernig leggst leikurinn í þig á laugardaginn? Er einhver fiðringur
í maganum, eða ertu orðin vön?

Leikurinn leggst mjög vel í mig, ég vona bara að við spilum okkar leik þá getur
allt gerst, það er smá fiðringur í maganum - svona spennufiðringur
 
Ætlið þið að leggja upp með eitthvað sérstakt í leiknum
Nei svo sem ekkert nýtt, bara spila góða vörn og hafa gaman af þessu.
 
Er eitthvað við spilamennsku Haukastúlkna sem ber að varast sérstaklega?
Þær er með hörkulið, það er kannski helst að hafa hugann við kanann hjá þeim,
en það má ekki vanmeta hina leikmennina, þær eru líka mjög duglegar.
 
Hvers vegna telur þú að Keflavíkurliðið hafi ekki nema 2svar sinnum
náð að landa þessum titil frá árinu 2000? Hvílir einhver bölvun í
þessari keppni?
Nei ég get ekki sagt að það hvílir einhver bölvun á Keflavíkurliðinu, ætli að
við höfum ekki bara verið óheppin í þessari keppni, en það breytist vonandi.
 
Einhver lokaorð til stuðningsmanna Keflavíkur?
Já endilega koma og hvetja okkur á laugardaginn, þið eruð stór hlekkur í þessu
líka, klárlega sjötti maðurinn á vellinum.