Fréttir

Karfa: Konur | 28. mars 2009

Úrslitaleikur í 1. deild kvenna í dag ?

Í dag kl.16.00 mætir B-lið Keflavíkurstúlkna grönnum okkar í Njarðvík í 1.deild kvenna og fer leikurinn fram í Toyota höllinni. Þarna má segja að um hreinan úrslitaleik sé að ræða því með sigri geta okkar stelpur tryggt sér deildarmeistaratitilinn. Sigri Njarðvík leikinn þurfa þær hins vegar að klára sinn síðasta heimaleik gegn liði Skallagríms til að tryggja sér titilinn þar sem Keflavík hefur talsvert betra stigahlutfall í innbyrðis viðureignum félaganna.

 

Njarðvík hefur þó tryggt sér sæti í Iceland Express deild kvenna að ári þar sem aðeins eitt meistaraflokkslið frá hverju félagi getur tekið þátt.  Við óskum þeim að sjálfsögðu til hamingju með það og vonandi eru þær komnar til að tjalda þar enda eru nágrannaslagirnir yfirleitt skemmtilegasta  körfuboltakryddið í okkar ástkæru heimabyggð.

 

Kjarni Keflavíkurliðsins í vetur eru okkar öflugu stelpur í 10. flokki kvenna og þessi þátttaka í deildinni hefur bæði þroskað þær og hert til muna. Það var okkar markmið í upphafi og því hefur verið náð.  Með sigri í dag yrði um hreina ábót að ræða en ljóst er að það dugar ekki stelpunum, enda fara þær alltaf í hvern leik til að ná sigri. Þær standa þó í ströngu prógrammi samhliða þessum úrslitaleik, því þær spiluðu tvo leiki í gær og verða búnar að spila einn leik í dag áður en að þessum leik kemur.  Fjórða og síðasta umferð 10. flokks kvenna er leikin í Heiðarskóla um helgina og á morgun spila þær síðasta leikinn í þeim pakka.  Þess má einnig geta að sjö stelpur í liði dagsins hafa verið valdar í unglingalandsliðið fyrir NM í Svíþjóð í maí n.k. þannig að ljóst er að góður efniviður fer að sigla upp í meistaraflokk félagsins.

 

Í síðasta leik þessara liða vann Keflavík dramatískan þriggja stiga útisigur þar sem úrslit réðust á lokamínútunni. Það er því spenna í loftinu og von á skemmtilegri rimmu í dag.

 

Allir stuðningsmenn kvennakörfunnar eru hvattir til að mæta og styðja stelpurnar til sigurs í dag.

 

Áfram Keflavík