Valur Orri kominn í stakkinn og tilbúinn í orrustu - Stutt viðtal við Val Orra
Keflavík mætir Stjörnunni í kvöld kl. 19.15 í Garðabæ í 8-liða úrslitum Domino´s deildarinnar, eins og allir ættu að þekkja. Það styttist því í þessa örrustu sem flestir telja að verði mjög spennandi og geti farið hvernig sem er. Valur Orri Valsson, leikstjórnandi Keflavíkur, virðist tilbúinn að heyja mikla baráttu en við lögðum fyrir hann nokkrar laufléttar spurningar rétt í þessu.
Eru menn komnir í stakkinn og búnir að setja á sig sjóhattinn fyrir komandi sjóorrustu?
Já, auðvitað eru menn tilbúnir fyrir svona leik - annað væri bara rangt!
Megum við búast við samheldnum hópi og leikgleði?
Ég vona að stemmningin byrji í kvöld að alvöru. Tímabilið hingað til hefur verið frekar skrítið hvað þessi mál varðar en vonandi að þetta hrökkvi í gang í kvöld og það verði taumlaus gleði í mannskapnum.
Hvað þarf að varast í leik Stjörnunnar?
Það er svo marg. Við þurfum að halda Shouse niðri því það myndi hægja á þeim að mestu leyti en ef við spilum okkar leik þurfum við ekkert að varast.
Má búast við einhverju óvæntu frá Keflavík í kvöld?
Já, ég held það - ég held að allir leikmenn geti gert betur og þá ég sérstaklega.
Hvernig endar þessi orrusta?
Við vinnum 2-0!