Fréttir

Karfa: Karlar | 12. október 2007

Viðtal við Sigga þjálfara fyrir leikinn gegn Grindavík

Strákarnir hefja leik í kvöld í Iceland Express-deildinni en þá koma nágrannar okkar úr Grindavík í heimsókn. Hægt er að lofa hörku leik, rétt eins og vanalega þegar þessi lið mætast. Grindvíkingum var spáð 3. sæti í deildinni en okkur aðeins 5. sæti sem er nátturulega tóm þvæla:)

Nokkuð hefur verið rætt um að okkar lið sé talsvert óskrifuð stærð en þó verður að geta að kjarni liðsins er sá sami og á síðasta tímabili. Sverrir Þór og Halldór Örn hafa yfirgefið okkur og við erum með þrjá nýja útlendinga, Anthony Susnjara, B.A Walker og Tommy Johnson sem spennandi verður að fylgast með í kvöld.

Heimasíðan hafði samband við Sigurð Ingimundarsson þjálfar liðsins og spurði hann nokkra spurninga.

Hvernig fannst þér spáin fyrir tímabilið þar sem okkur var spáð 5. sæti?

Ég er bara nokkuð sáttur við spánna og í raun gaman að hafa hana svona, en það er nokkuð ljóst að við ætlum okkur að vera ofar en 5. sæti.  Þar sem við vorum lítið með í æfingamótum er það í raun eðlilegt að spá okkur þarna.

Hvernig hafa æfingar gengið?

Æfingar hafa gengið mjög vel og hópurinn er góður. Það mun þó taka einhvern tíma að koma liðinu í það horf sem við viljum hafa það, enda ekkert spilað saman.

Hvernig er ástandið á leikmönnum fyrir leikinn í kvöld?

Það eru allir heilir og verða með í kvöld

Hvernig lýst þér á leikinn í kvöld gegn Grindavík?

Mjög vel, þetta verður hörkuleikur og menn eru spenntir fyrir leiknum. Eins og áður sagði verður svo að koma í ljós hvernig liðið nær saman í sínum fyrsta leik.

Við hvetjum stuðningsmenn að fjölmenna á leikinn í kvöld og sýna alvöru stuðning i fyrsta leik vetrarins. Áfram Keflavík