Fréttir

Karfa: Konur | 5. febrúar 2009

Vorum skelfilega lélegar

Keflavík tapaði fyrir KR í gær í DHL-höllinni, 78-74 eftir spennandi leik.  Keflavík var með 1.stigs forustu þegar um mínuta var eftir af leiknum.  KR stelpur skoruðu 5. síðustu stig leiksins eftir að okkar stelpur höfðu tapað boltanum klaufalega í þrígang.  Liðin mætast næst í bikarúrslitaleik í Laugardalshöllinni 15. febrúar og ljóst að stelpurnar munu mæta brjálaðar í þann leik.

Stigahæst var að vanda Birna með 29. stig og 9 fráköst. Pálína var með 17. stig og Bryndís 7. stig.   Tölfræði

Birna Valgarðsdóttir eftir leik

Var þetta forsmekkurinn af því sem koma skal í Laugardalshöll?
,,Allavega spennustigið og það getur allt gerst í bikarleik en við vorum skelfilega lélegar og við skitum upp á bak í þessum leik,“ sagði Birna ósátt við ósigurinn.

Vörnin var sterk framan af en hvað geriðst?
,,Við fórum bara að hengja haus og láta það pirra okkur þegar KR fór að spila stíft og við vorum bara lélegar,“ sagði Birna sem var áberandi stigahæst í Keflavíkurliðinu. Telur hún að það hafi þurft meira framlag frá öðrum liðsmönnum?

,,Nei nei, þær voru bara duglegar að mata mig í þessum leik en við þurfum að hafa hausinn í lagi í svona leikjum. Það er ekki flóknara,“ sagði Birna en hvað er það sem Keflavíkurliðið þarf þá helst að laga fyrir bikarúrslitaleikinn gegn KR?

,,Hugarfarið, það er ekkert annað í stöðunni, við vorum að spila ágæta vörn á köflum en það er hugarfarsbreyting sem þarf að eiga sér stað,“ sagði Birna en eru Keflvíkingar með þessum ósigri búnir að gefa Haukum efsta sæti riðilsins?

,,Nei, við ætlum að láta þær hafa fyrir þessu efsta sæti og við spyrjum bara að leikslokum,“ sagði Birna sem farið hefur á kostum með Keflavík þessa leiktíðina og gerir 23,5 stig að meðaltali í leik. Aðspurð hvort hún ætti eitthvað meira bensín á tanknum en aðrir kvaðst Birna versla bara hjá ÓB og ljóst að ósigurinn í gær risti ekki djúpt heldur var hún strax farin að horfa fram á veginn.

Karfan.is